Leikandi nám – nærandi samvera
Spil sem kennsluaðferð
Skólastofan á að vera öruggt skjól sem allir hlakka til að dvelja í. Leikir eru að mínu mati frábær leið til að skapa slíkt umhverfi – þar sem gleði og leikræn nálgun styðja við nám og þátttöku. Námsspil veita ólíkum nemendum tækifæri til að vaxa saman, hverjum á sínum hraða.
Spil brjóta ísinn
Leikir, þrautir og spil eru mjög skilvirk leið til að nálgast nemendur „frá hlið“. Með þeim ná börnin oft að tileinka sér nám án þess að gera sér meðvitaða grein fyrir því. Þeir nemendur sem eru í vörn gagnvart námi, eða kennaranum, fella jafnvel varnir þegar námið breytist í leik.
Námskvíðinn minnkar
Nemendur sem búa yfir ótta gagnvart námsefninu eða almenna minnimáttarkennd í námi ná frekar að slaka á í leik eða þrautalausnum. Með því að fara fram hjá meðvitaðri námshugsun (sem getur einkennst af sjálfsniðurrifi) þá ná þeir betri einbeitingu og yfirvegun. Á endanum geta þeir komið sjálfum sér gleðilega á óvart með þekkingu eða kunnáttu gegnum „ómeðvitað nám“.
Fleiri skilningarvit virkjuð
Spil höfða til fleiri skilningarvita en venjulegar námsbækur. Þau eru oftast mjög myndræn, litrík og eru í eðli sínu mjög áþreifanleg. Þau byggjast á einhverri virkni með öðrum í afmörkuðu rými og ganga oft út á færslur á leikmönnum, samtal og hreyfingu. Nemendur þurfa, samkvæmt fjölgrendarkenningunni, að geta nálgast efnið á sem fjölbreyttastan máta, ekki aðeins í gegnum texta og spil uppfylla það skilyrði svo sannarlega.
Skýr tilgangur
Spil búa yfir skýrum tilgangi. Nemendur sem eiga erfitt með að sjá líf sitt í stærra samhengi átta sig oft illa á markmiði námsefnisins og upplifa því takmarkaðan tilgang með náminu. Spil eru miklu afmarkaðir veruleiki og einfaldari. Þau búa yfir afmörkuðu upphafi og endi og bjóða upp á bæði skýrt skilgreind og nærtæk markmið. Með vönduðum námsspilum geta nemendur því þjálfað færni á meðan þau gleyma sér í því að stefna markvisst að einhverju um stund.
Örugg veröld
Spil eru hliðarveruleiki. Þau eru heimur út af fyrir sig. Með sitt afmarkaða upphafi og endi rétt á meðan leikurinn stendur yfir er búið að ramma fókusinn inn þannig að önnur vandamál komast síður að. Spil eru öruggur og lokaður veruleiki sem getur bægt frá því sem sækir á hugann í daglegu amstri.
Öflug félagsþjálfun
Leikur býður upp á frábæra félagsþjálfun. Hann er heppileg verkfæri fyrir foreldra og kennara til að fylgjast með samskiptum barnanna og er á sama tíma tækifæri fyrir að leiðbeina nemendum í að takast á við mótlæti, læra að tapa, hrósa félögum sínum, hvetja þá áfram eða samgleðjast. Einnig er þetta kjörinn vettvangur til að æfa sigi í léttri viðeigandi stríðni eða læra að taka því þegar annar aðili montar sig eða kætist um of.
Grín og gleði
Leikur er tækifæri fyrir kennara að slá á létta strengi og kynnast nemendum gegnum húmor. Sem keppni bjóða spil upp á það að bregða fæti fyrir hvert annað og þar af leiðandi bjóða þau í leiðinni upp á smá ögrun, jafnvel stríðni, húmor og góðlátlegt grín eiga vel heima innan marka spila og eru betur liðin af því þau eru afmarkaður heimur. Spil bjóða því upp á uppbrot í samskiptum, draga fram eitthvað nýtt og óvænt í samskiptum og þar af leiðandi kynnast betur. Spil eru því vel til þess fallin að styrkja og dýpka tengslin og kjörinn vettvangur til að létta andrúmsloftið.
Jafningjatengsl
Spil mynda auðveldlega brú á milli ólíkra einstaklinga. Ef þau ganga einhverju leyti eða að mestu leyti út á heppni virka spil eins og heiti potturinn í sundi, þar mætast háir og lágir á jafnréttisgrundvelli. Kennarinn og nemendur eiga jafna möguleika og í sumum tilvikum eru nemendur sterkari á svellinu en kennarinn, einkum ef spilið reynir á ferskeika eða snerpu.
Valdefling
Nemandinn getur stækkað með þátttöku í spilum. Í þeim tilvikum sem nemandi þekkir spil vel og getur útskýrt reglurnar er tilvalið að kennari dragi sig í hlé (hvort sem hann þekki spilið sjálfur eða ekki) og leyfi nemandanum að útskýra. Með því snúast hlutverk kennara og nemanda. Kennarinn þiggur fróðleik og ráð frá nemandanum, sem stækkar fyrir vikið.
Samvera og nánd
Spil sem leikin eru augliti til auglitis (en ekki á tölvuskjá) fela óhjákvæmilega í sér samveru, nánd. Þetta er gæðastund þar sem nemandinn er hluti af einingu tveggja eða fleiri einstaklinga sem sameinast í leik. Þessi nærvera er mörgum nemendum það mikilvægasta sem þeir fá út úr veru sinni í skólanum.
Þolinmæði
Spil þjálfa biðlund og þolinæði. Flest spil ganga þannig fyrir sig að leikmenn skiptast á að bíða eftir að röðin komi að þeim. Maður þarf að sitja á sér á meðan aðrir eiga leik og leyfa þeim að hafa orðið og taka sínar eigin ákvarðanir án afskipta. Leikur felur því í sér talsverða þjálfun í kurteisi og þolinmæði.
Löghlýðni
Leikur og spil eru prýðileg þjálfun í samfélagslegri hlýðni. Í öllum spilum þarf að fylgja reglum og sjá til þess að allir séu á sama báti. Sá sem ekki fylgir reglunum eða hefur tilhneigingu til að svindla málar sig út í horn og fær síður að vera með. Hérna birtist félagslegt taumhald samfélagsins í hnotskurn.
Greiningartól
Spil eru frábær leið fyrir kennara til að greina hæfni nemenda á ýmsum sviðum án þess að leggja fyrir þá próf. Þar kemur vel í ljós hversu hratt þeir meðtaka reglur, hversu kappsamir þeir eru, hvernig þeir þola mótlæti, hversu skilningsríkir þeir eru, hversu reglufastir, sveigjanlegir og almennt hver félagsgreindin er auk talnaskilnings, fínhreyfingar og þolinmæði ásamt ótal öðrum þáttum sem hafa mikið að segja um velgengni þeirra í lífinu.
Álagsstýring
Spil og þrautir bjóða upp á þægilega álagsstýringu í kennslustofunni. Nemandi sem er á undan öðrum í námi getur leitað í þrautahefti og haft þar með ofan af fyrir sér og öðrum. Eins er hægt að afhenda þeim nemendum sem eiga erfitt með að fylgja bekknum, og komast ekki af stað með verkefnin, léttar þrautir þar til kennari/leiðbeinandi kemur til aðstoðar. Með leikjum/þrautum geta þeir dundað sér og haldið sér í ánægjulegri virkni þar til stuðningurinn fæst.
Hvatning
Spil virka vel til að brjóta ísinn en ekki síður sem hvatning. Ef nemandi hefur sérstaklega gaman af spili eða þraut má stilla því upp sem umbun í kjölfar góðrar námsframmistöðu. Stundum þarf að leggja á sig vinnu til að geta notið þess að slaka á. Það er viðhorf og vinnulag sem nemendur hafa gott af að taka með sér út í lífið.
Þorsteinn berghreinsson
Ég heiti Þorsteinn G. Berghreinsson og er kennari í Brúarskóla og hef starfað þar og í almennum skóla við sérkennslu í um 20 ár. Nánar um mig hér.
Mig langar með þessari vefsíðu að bjóða ykkur upp á ferðalag um heim námsspila sem vonandi kveikir hugmyndir, vekur innblástur og opnar sýn á leik sem ánægjulega en markvissa kennsluaðferð. Margt af efninu hef ég þróað í starfi mínu, ýmist frá grunni eða mótað út frá hugmyndum annarra, en einnig safnað saman upplýsingum um hentug námsspil og framleiðendur námsspila. Sumt af efninu á síðunni er til sölu (kíkið á Slöngulausa spilið fyrir neðan) en að mestu leyti er um að ræða ókeypis aðgang að hafsjó hugmynda héðan og þaðan.
Ykkar er að fletta, skoða og njóta.
Aðlögun spila að námi
Hér er hægt að finna hugmyndir um það hvernig má laga vel þekkt spil að ýmsum viðfangsefnum og áhuga nemenda.
Aðlögun spila
Heppileg kennsluspil
Hér er samantekt og flokkun á þeim spilum sem henta vel til kennslu og eru almennt fáanleg í verslunum
Kennsluspil
Framleiðendur og söluaðilar
Þetta er listi yfir þá aðila sem framleiða og selja spil. Flestar eru síðurnar hafsjór af hugmyndum.
FramleiðendurSlöngulausa spilið
Slöngulausa spilið er byggt á slönguspilinu sem allir þekkja, þar sem tilviljun ein ræður för. Ólíkt því reynir slöngulausa spilið á framsýni og einfalda reiknihæfni án þess að það trufli spilamennskuna um of. Þetta er litrík og nútímaleg útgáfa af spilinu sem hefur þróast smám saman undanfarin tíu ár í kennslu og tómstundum.
