Top Trumps
Top Trumps er sérlega hentugt spil fyrir skólastofuna enda afar grípandi og einfaldur leikur sem hægt er að spila í mjög afmörkuðu rými, á stuttum tíma og með breytilegum fjölda þátttakenda.
Top Trumps eru í raun bara aðgengileg þematísk upplýsingaspjöld sem nemendur bera saman. Spjöldin innihalda upplýsingar um mismunadi “einstaklinga” sem tilheyra þemanu. Það geta verið mismunandi dýrategundir, persónur úr bíómyndum, lönd, fjöll allt eftir yfirskrift bunkans hverju sinni. Nemendur skipta bunkanum jafnt á milli sín og sá sem byrjar skoðaðr efsta spilið í bunkanum sínum og velur það atriði sem hefur hæsta gildið, ber saman við spil keppinautanna og vonast til að geta með því “trompað” andstæðinginn og þar með spilið af keppinautnum. Sá sem vinnur spil með þessum hætti heldur áfram að spyrja þar til hann klikkar (þá á sá sem vinnur af honum spilið næst leik). Þetta heldur svona áfram þar til annar aðilinn tæmir bunkann sinn eða tíminn sem úthlutað var í spilið er úti (og þá vinnur sá sem er með stærri bunka eftir á hendi). Til að sjá skýringu á gangi spilsins er hægt að smella hér.
Kostirnir við að nota Top Trumps í kennslustofunni eru margþættir:
- Spilin eru afar handhæg (passa í lófa).
- Það er einfalt að læra reglurnar.
- Það krefst ekki sérstakrar færni að spila því það gengur að mestu leyti út á heppni (með smá innsæi eða skilningi á talnagildum).
- Það er sveigjanlegt hvað fjölda þátttakenda varðar (æskilegur fjöldi 2-4).
- Spilið krefst ekki mikils tíma og hægt er að ljúka því hvenær sem er, með litlum fyrirvara.
- Spilið er ekki plássfrekt (þarf ekki einu sinni borð).
- Spilið hentar vel til að tengja saman nemendur sem þekkjast lítið því spilið býður upp á afar einföld en markviss samskipti.
- Top Trumps hefur oft reynst vel í að fá feimna nemendur eða þá sem eru svo til alveg lokaðir (t.d. með kjörþögli) til að opna sig aðeins og nota röddina örlítið.
- Spilið er ekki hávært og hægt að spila nánast hljóðlaust.
- Það býður upp á mikinn þematískan fjölbreytileika og hægt að laga að áhugamálum nemenda.
- Spilið miðlar af fróðleik á einfaldan hátt.
- Það er auðvelt að búa til sinn eigin bunka og laga að nánast hvaða efni eða áhugamáli sem er.
- Með því að spila erlendar útgáfur spilsins þjálfast einnig færni í framburði og skilningi á erlendum hugtökum.
Top Trumps hefur gefið út ógrynni af spilabunkum í gegnum tíðina um öll hugsanleg áhugamál og nokkrir þeirra hafa verið þýddir á íslensku (og eru fáanlegir í verslunum hér á landi). Hér fyrir neðan er hins vegar ágætis sýnishorn af því hvað er fáanlegt á erlendum markaði og þar fyrir neðan eru hugmyndir um það hvernig við getum nýtt okkur forskriftina til að búa til okkar eigin útgáfur af Top Trumps.
Það er mjög lærdómsríkt fyrir nemendur af búa til sína eigin stokkaurfa . Þeir það fara í gegnum það sjálfir (eða með aðstoð kennara) að velja hvaða atriði skipta máli og hvernig maður metur gildin hverju sinni. Hér er til dæmis sagnfræðibunki með atriðum sem eru ýmist staðreyndir (fæðingarár) eða huglægt mat (mat á hárgreiðslu).
Bunkarnir geta svo hæglega byggst á áætlun eingöngu (huglægu mati) eða beinhörðum staðreyndum, eins og eftirfarandi bunki.
Frá vísindum yfir í ímyndaðan heim teiknmyndapersóna. Það fellur allt vel að Top Trumps leiknum. Til að auka lærdómsgildið hefur hér verið bætt við smá talnaþraut eða dæmi sem þarf að reikna áður en tölurnar eru bornar saman.
Sá reikningur sem nemendur fara í gegnum áður en tölurnar eru bornar saman getur verið mismunandi, allt frá einfaldri samlagningu eða frádrætti yfir í margföldun og liði (hér að ofan) og brotareikning, sem settur er fram með nokkuð aðlaðandi hætti í poppstjörnuspjöldunum (fyrir neðan).
Svo er vel hægt að vinna þetta í höndunum alla leið og jafnvel teikna sínar eigin myndir inn í smekklega forsniðna ramma (sem hægt er að ljósrita og fjölfalda). Það má líka fara milliveginn og prenta út myndir af netinu og klippa/líma og gera þetta að föndurverkefni í leiðinni.
Sjálfur hef ég haft mjög gaman af því að bera fram fróðleik með hjálp Top Trumps hugmyndarinnar. Landafræði verður miklu meira aðlaðandi svona fyrir flesta nemendur en sem texti á blaði og smám saman, með endurtekinni spilamennsku, vex tilfinning nemenda fyrir alls konar tölfræði eins og íbúafjölda, stærð lands í ferkílómetrum og jafnvel erfiðari hugtök eins og dreifing.
Hér eru Evrópuspjöld og undir þeim samsvarandi spjöld um fylki Bandaríkjanna:
