Framleiðendur og hönnuðir

Ravensburger

Ravensburger er heimsþekktur spilaframleiðandi og hefur gefið út mjög fjölbreytt spil, bæði metnaðafull borðspil og einföld klassísk spil eins og samstæðuspil og púsl. Það er mjög mikill gæðastimpill ef blái þríhyrningurinn skreytir pakkann.

Thinkfun

Think Fun var eitt sinn sjálfstæður framleiðandi en virðist nú tilheyra Ravensburger og finnst sem undirsíða undir hatti Ravensburger. Spilahugmyndir Think Fun eru mjög líflega og margt sem kemur á óvart.

Eeboo

Eeboo er dásamlegur spilaframleiðandi sem framleiðir einstaklega falleg spil og aðlaðandi en að sama skapi kennslufræðilega vönduð.

Schmidt

Spilaframleiðandinn Schmidt hefur nokkra sérstöðu í framleiðslu á handhægum, einföldum og þægilegum spilum sem auðvelt er að grípa í (og hentar vel í kennslustofunni). Mörg þeirra eru mjög vinsæl hér á landi.

Math for love

Math for Love er eins konar stærðfræðisetur. Fyrirtækið er afurð hjóna sem hafa fundið óhefðbundna nálgun í stærðfræðikennslu og framleitt fjöldann allan af stærðfræðispilum (mörg þeirra verðlaunaspil). Síðan er líka ráðgefandi og veitir aðgang að mögnuðum hugmyndabanka.

Nordic Games

Spilaútgáfan Nordic Games er dreifingaraðili að spilum hér á landi hefur staðið að þýðingu fjölda erlendra spila fyrir íslenskan markað. Ekki er hægt að kaupa beint af þeim heldur er vísað í aðra söluaðila (verslanir). Vefsíðan er engu að síður mjög áhugaverð, með hafsjó af útgefnum erlendum spilum sem hægt er að óska eftir gegnum verslanir.

Larsen

Larsen er púsluspilahönnuður með mikið úrval af púslum sem nýtast í kennslu, mörg mjög hugvitsamlega hönnuð. Ekki bara landafræðipúsl eða náttúrufræðipúsl heldur einnig stærðfræðipúsl, tungumálakennslupúsl og sagnfræðipúsl. Hér er hægt að týna sér.

Spilavinir

Verslunin Spilavinir er langstærsta og metnaðarfyllsta spilaverslun landsins. Þar er hægt að finna nánast allt sem hugurinn girnist. Starfsfólk verslunarinnar er ótrúlega áhugasamt og hjálplegt. Hægt er að setjast niður, kaupa sér léttar veitingar eða mæta á sérstökum spilakvöldum sem eru tilkynnt öðru hvoru. Vefsíðan þeirra er einnig vel skipulögð þar sem boðið er upp á vandlega flokkaðar undirsíður (spilalista fyrir öll skólastig) þar sem hægt er að leita að spilum bæði þematískt og eftir getustigi. Dýrmæt hjálp fyrir kennara.

Margt&Mikið

Mig langar sérstaklega að vekja athygli á annarri verslun sem færri vit af og er staðsett á bak við BYKO Breiddinni. Hún heitir Margt og mikið og selur alls konar ritföng og skólavörur með óvenjumikið úrval af spilum. Búðin kemur verulega á óvart með vöruúrvalinu og ekki skemmir fyrir að ýmsar vörur fást hér á lægra verði en annars staðar.

Leikfangaland

Einnig má minnast á Leikfangaland sem er Hafnfirðingum væntanlega mjög kunnug, enda staðsett í verslunarmiðstöðinni Firðinum. Verslunin býður upp á leikföng í mjög almennum skilningi (bæði inni- og útileikföng) en býr samt yfir ágætu úrvali af námsspilum. Á afskaplega fjölbreyttum vörulista má vinna flokkana “þrautir og leikir” annars vegar og “spil og púsl” hins vegar.

ABC skólavörur

ABC skólavörur eru mikil hjálparhella kennara með kennslufræðigögn og -spil uppi um alla veggi. Margir kennarar fara þangað oft á ári og ekki að ósekju.

Krumma

Af svipuðum toga er verslunin Krumma, í Grafarvoginum, sem sérhæfir sig í skólavörum og þroskaleikföngum. Þar er mikið úrval af áhugaverðu en óhefðbundnum kennsluefni sem vert er að skoða nánar. Hjá Krumma blandast leikur og nám á mjög þroskandi og skemmtilegan hátt.

Ekki má gleyma því að bókaverslanir og ritfangaverslanir búa yfirleitt yfir miklu úrvali spila (Þar má nefna A4, Pennann/Eymundsson og jafnvel stærri matvöruverslanir eins og Hagkaup)