SAMSTÆÐUSPIL
Samstæðuspil eru einmitt spil þar sem börn eru líkleg til að vinna fullorðna. Þessi spil eru til í alls konar útgáfum, með fjölbreyttu þema þannig að hægt er að vinna með áhugamál eða námsefni á afslappaðan hátt í spjallgír. Mikilvægt er að nefna hugtökin sem koma upp jafn óðum, bæði til að skerpa athyglina í spilinu sjálfu en ekki síður til að leggja inn ný hugtök hjá nemendum.
Venjulega hefur spilið að geyma pör af nákvæmlega eins myndum sem keppendur reyna að finna og para saman. Einfaldur leikur og óþrjótandi möguleikar á efnistökum frá einfaldri hugtakavinnu yfir í landafræði. Áhugaverðast hins vegar, frá sjónarhóli kennarans, er þegar pörin samanstanda ekki af tveimur alveg eins myndum og reyna þá aðeins á skilning…..
Samstæðuspil eru afar heppilegt verkfæri í tungumálanámi. Hér er dæmi um spil þar sem annar helmingur parsins hefur að geyma mynd en hinn helmingurinn er orð. Frábær leið til að leggja inn grunninn í hugtakaskilningi barnanna.
Einnig er hægt í samstæðuspili að vinna með tvö tungumál samtímis. Einfaldast er að spjöldin geymi sömu myndina á spjöldunum tveimur með tvö ólík hugtök við myndirnar á tveimur mismunandi tungumálum. Þetta gætu börn hæglega unnið sjálf með stuðningi kennara. Gott tækifæri í skóla nútímans og margbreytileikans þar sem nemendur hafa ótal tækifæri til að læra hver af öðrum.
Þetta samstæðuspil vinnur með hugtök andstæðrar merkingar. Spjöldin sýna myndir sem eru mjög lýsandi: stór/ lítill, harður/ mjúkur, dagur/ nótt og svo framvegis. Hugtökin sjálf eru ekki rituð á spjöldin, líklega til að vekja börnin til umhugsunar jafn óðum og spilið er spilað með kennaranum.
Í þessu spili er unnið með táknmál þannig að bæði táknið og bókstafurinn eru saman á myndinni – en hafa mismikið vægi. Hér er gert ráð fyrir að leikmenn séu að læra táknmálið jafn óðum. Svona væri hægt að vinna með framandi leturgerðir eins og gríska stafrófið eða það rússneska, fyrir þá sem vilja feta þá braut.
Hérna er snilldarspil frá frábærum framleiðanda (Lawrence King Publishing) þar sem samstæðan byggist á laufblaði annars vegar og svo trénu sem það tilheyrir. Myndirnar tvær eru ólíkar en tilheyra sama fyrirbærinu, mismunandi tegundum trjáa, og veitir þannig miklu heildsteyptari sýn á það sem við erum að skoða heldur en ein mynd gæti nokkurn tímann gert.
Sömu framleiðendur hafa hannað samstæðuspil þar sem parið felur í sér fullorðið dýr af ákveðinni tegund og afkvæmi þess. Slíkt samstæðuspil hafa þeir framleitt fyrir bæði hunda, ketti og fugla). LKP útgáfan hefur líka hannað spil þar sem parið er samansett af tveimur einstaklingum af sitt hvoru kyninu. Í heimi fugla er oft um talsverðan útlitsmun að ræða. Fjölskrúðugur pakki þar á ferð.
Önnur óhefðbundin leið er að taka þekkta mynd, eins og til dæmis frægt málverk, og fókusa á sitt hvort smáatriðið í myndinni og líta á þau spjöld sem par. Heildarmyndin væri í meðfylgjandi bók eða bæklingi til glöggvunar.
Einnig væri hægt að skipta listaverki í tvennt eins og gert er í Match a Masterpiece hér að ofan. Myndinni er snyrtilega skipt í tvennt og helmingarnir þurfa að rata aftur saman til að hægt sé að sjá myndina í heild.
Fyrirtækið Printworks hefur gefið út ótrúlega skemmtileg og skapandi samstæðuspil. Hér eru bíómyndir, það er að segja tilvitnun úr bíómynd á móti einkennandi búningum úr myndinni. Fyrirtækið hefur einnig framleitt samstæðuspil þar sem þeir hafa líka parað saman lagatexta og hljómsveit með svipuðum hætti. Einnig má nefna samstæðuspil þar sem fræg bygging prýðir annað spjaldið en nafn borgar er að finna á spjaldinu á móti.
Að lokum er hér eitt af mínum uppáhalds samstæðuspilum, frá Ravensburger. Tímaferðalag (Zeitreise) kalla þeir útgáfuna og hefur að geyma leikföng frá því í gamla daga í samanburði við leikföng dagsins í dag. Spilið er verulega fallegt og vandað og vekur kennara, foreldra, nemendur og börn almennt til umhugsunar um þær breytingar sem hafa átt sér stað í daglegu lífi barna í tímans rás.
