Tímalína eru frábærlega hönnuð spil þar sem leikmenn skiptast á að láta út spjöld í tímaröð – án þess að vita fyrirfram hvert ártalið er (sem er á bakhliðinni) – og reyna að losa sig við eigin spjöld á undan hinum. Ef leikmaður lætur spil á rangan stað í tímaröðina þarf hann að draga nýtt spil og dregst þannig aðeins aftur úr. Þetta er sannkallað spjallspil þar sem keppendur njóta þess oft að hugsa upphátt með hinum, þiggja vísbendingar og álykta út frá þeim.
Tímalínustokkarnir fást í veglegri öskju (ýmist ferkantaðri eða hringlaga) og er til á bæði ensku og íslensku. Sumir stokkarnir eru þematískir með því ýmist að beina sjónum meira að vísindum, eða uppgötvunum eða skoða sérstaklega stríð eða dægurmenningu.
Hérna er prýðileg kynning á því hvernig spilið virkar.
Gaman er að vinna með tímalínuspjöldin með nemendum, velta vöngum og spá í samhengið. Ef áhuginn er mikill er gaman að finna myndir og hengja upp á vegg. Tímalína getur til að mynda verið mikil veggprýði.
Tímalínu er hægt að leika sér með að vild. Til dæmis ef áhuginn beinist að bílum þá er um að gera að bera saman ártöl í bílaiðnaðinum. Ef Disney er málið þá er hægur vandi að raða bíómyndum í tímaröð. Tónlistarmenn má leika sér með á sama hátt. Það er líka gaman að skoða eitthvað nærtækt eins og aldur kennara skólans og raða þeim í timaröð eftir fæðingarári. Hver fæddist eiginlega fyrstu? Það má bera saman við ættingja nemenda. Einnig má leika sér með lífríki jarðar með svipuðum hætti. Hvenær dóu dýrategundir út, hvenær voru þær uppgötvaðar?
Hér eru spjöld sem unnin voru í samvinnu við nemendur Brúarskóla árið 2015. Bakhliðin, sem geymdi ártalið, var teiknuð af nemendum.
Talandi um nærtæka tímalínu þá er til mjög skemmtileg íslensk sérútgáfa af spilinu sem kallast “tímaflakk” og fæst ennþá í búðum.
Atburðirnir sem eru teknir fyrir í stokknum eru að mörgu leyti eftirminnilegri en atburðirnir í sambærilegum erlendum bunkum.
Hver man ekki eftir hruninu, snjóflóðunum á Vestfjörðum, leiðtogafundinum eða þegar Mezzoforte sló í gegn með Garden Party?
Tímaflakk er sannkallaður minningabanki fyrir þá sem muna tímana tvenna! Við þetta má bæta að höfundurinn er með heimasíðu þar sem hægt er að leika sér með einfalda rafræna útgáfu af spilinu.
Einnig hafa verið framleiddir bunkar með annars konar upplýsingum sem hægt er að spila eins og tímalínu. Þeir bunkar kallast Cardline og bera saman upplýsingar um mismunandi lönd, dýrategundir dagsins í dag eða forsöguleg dýr. Leikurinn snýst auðvitað bara um það reyna að raða gildunum í stærðarröð, svipað og með ártöl tímalínunnar. Það má líka segja að Cardline sé líkt Top Trumps spilabunkunum enda er vel hægt að leika sér með Top Trumps á sama hátt, þ.e.a.s. bera saman stærðir, þyngd og aldur og önnur gildi og raða í stærðarröð.
Hér er frábær útgáfa af tímalínuspili sem hugsuð er fyrir myndlistarkennara og áhugafólk um fagurfræði í tímans rás. Frábær bæklingur fylgir með leiðbeinandi yfirlitsmynd af tímalínunni í heild sinni. Það væri freistandi að reyna að hanna sambærilegan bunka fyrir íslenska myndlist.
Tímalínuspjöld geta nemendur klárlega dundað sér við að búa til sjálfir eftir eigin hugðarefnum. Það gæti orðið frábær samvinnuverkefni svo ekki sé talað um ef það ratar upp á vegg.
Að lokum má ekki gleyma Hitster, spilinu sem slegið hefur rækilega í gegn sem allsherjar samkvæmisspil. Leikmenn heyra lag, hlusta saman og rifja upp góða tíma og reyna svo að staðsetja lagið á tímaás. Ótrúlega líflegt og skemmtilegt. Spilið er til á íslensku.
Nánari upplýsingar eru hér.
