Hraðaspil
Sumir leikir gera þær kröfur til manns að hugsa hratt og bregðast við á undan hinum. Hér er einföld lýsing á nokkrum þeirra sem hafa gefist vel í skólastofunni og vekja almennt áhuga og gleði.
Tvenna (Dobble) er æsispennandi spil þar sem takmarkið er að finna tvær eins myndir í flæðandi súpu af hressilegum myndum. Athyglin fer á fullt og spennustigið hækkar. Það er líka hægt að spila Dobble rólega, án tímapressu, en krökkunum finnst það ekki eins skemmtilegt. Muna bara að nefna hlutinn á nafn þegar hann finnst því þá þjálfar spilið einnig hugtakanotkun.
Geistes er mikið rökfræðispil en er á sama tíma hraðaspil og eflir athygligáfuna. Takmarkið er að sjá hvaða hlutur (grá mús, rauður stóll, hvítur draugur, blá bók og græn flaska) passar við myndina sem snúið er við og þá er sá hlutur gripinn glóðvolgur. Varúð! Hluturinn þarf að vera BÆÐI á myndinni OG í sama lit. Ef enginn hlutur passar “alveg” þá skal í staðinn grípa þann hlut sem passar HVORKI við hlut NÉ lit á myndinni. Spilið er hratt, ruglandi og fyndið, allt á sama tíma.
Klack er æsispennandi spil þar sem fyrirmælum af teningum er fylgt, þar sem upp koma annars vegar “form” og hins vegar “litir”. Þá keppast allir við að ná þeim skífum sem passa við bæði skilyrðin. Skífurnar eru segulmagnaðar svo þær staflast hratt og vel. Hægt er að tempra hamaganginn í leiknum með ýmsum reglum (t.d. með því að einn geri í einu) en oftast sækjast krakkarnir einmitt eftir hraðanum og spennunni. Mjög grípandi spil fyrir yngstu krakkana.
Blink er eiginlega blanda af Ólsen og kleppara því í leiknum Blink skiptast keppendur ekki á að gera heldur reyna að spila hraðar en andstæðingurinn. Þeir eru með sinn hvorn bunkann hjá sér og tvö spil á milli sín sem snúa upp. Þeir keppast um að vera fyrri til að losa sig við spilin sín (þau þurfa að passa við lit, tölu eða form) en verða að draga spil úr bunkanum sínum jafn óðum og þeir losa sig við spil í miðjuna. Klárast á augabragði.
Sprengjuspilið eða “Pass the Bomb” er mikill hasar. Það fær nemendur til að kalla fram hugtök sem tengjast fyrirframgefnu þema sem birtist á spjaldi (t.d. “á ströndinni”, “í skólastofunni” eða “á jólunum”). Um leið láta þeir sprengju ganga sem tifar og gefur frá sér sprengjuhljóð á endanum, eftir fimm, fimmtán, þrjátíu …(enginn veit hvenær)…sekúndur. Það er því eins gott að muna sem fyrst eftir orði sem tengist þemanu áður en röðin kemur að manni og geta þannig losað sig við sprengjuna hratt og vel. Nemendur þurfa að vera nokkrir saman komnir til að þetta verði skemmtilegt og sitja í hring (til dæmis kringum borð).
Önnur spil sem gætu fallið undir þennan flokk sem hraðaspil eru:
Kaleidos (sjá “Athyglis- og minnisspil”)
Make N´Break (sjá “Hreyfifærnispil”)
Orðaleit (sjá “Tungumála- og málörvunarspil”)
Set (sjá “Rökfræðispil”)
