Önnur borðspil

Borðspil geta verið mjög flókin og krafist mikils spilatíma og verið ruglingsleg til að byrja með. Eftirfarandi spil hef ég hins vegar góða reynslu af í kennslutofunni. Þau eru ögrandi sem námsspil en samt frekar einföld að gerð og tiltölulega auðvelt er að stilla þeim upp. Þau krefjast ekki mikillar færni eða yfirlegu en þó einhverrar uppsetningar og útskýringar – auk smá tíma (sum er heppileg sem framhaldsspil í tveimur til þremur áföngum sem hægt er að hlakka til að klára seinna).

Prime Climb er líklega best útpælda stærðfræðispil sem ég hef séð. Þar er unnið með prímtölur og á mjög myndrænan hátt sér maður hvernig allar hærri tölur eru byggðar upp af grunneiningunum sem prímtölurnar eru. Sjálft leikborðið er fræðandi en leikurinn einfaldur og mjög líflegur. Takmarkið er að koma tveimur leikmönnum inn að miðju.

Stratego er mikill herkænskuleikur sem gengur út á það að ná fána anstæðingsins án þess að sjá nokkurn tímann hver leikmannann geymir hann. Leikurinn gengur út á blekkingu og er í leiðinni mikill minnisleikur því hvor keppandi sér aðeins bakhlið peðanna, þar til hann gerir árás. Þá sést hver er á þeim reit, en aðeins rétt á meðan. 

10 Days in Europe er líka til undir sambærilegu nafni í útgáfum um aðrar heimsálfur. Leikurinn gengur út á að búa til tíu daga ferðalag um heimsálfuna (hér: Evrópu) með því að raða saman spjöldum landa sem raunverulega liggja saman eða tengjast með skipum/flugvélum. Leikurinn fær nemendur til að skoða landakortið vel og vandlega.

Ticket to Ride er mjög vinsælt landafræðispil og er til í fjölda útgáfa um ýmsar heimsálfur og svæði heimsins. Leikurinn gengur út á að safna stigum með því að byggja lesterlínur á milli borga og klára miða sem manni er úthlutað. Leikurinn krefst herkænsku og býr yfir miklum fróðleik um landafræði. Leikurinn tekur drjúgan tíma, 30-60 mínútur, og í skólastofunni er Ticket to Ride tilvalið sem framhaldsspil.

Sequence er frekar einfalt spil og er til í nokkrum útgáfum. Hér að ofan er þemað spilastokkur en einnig er hægt að spila þægilega og einfalda útgáfu sem gengur út á stærðfræði (þar sem dregin spjöld með einföldum dæmum þurfa að samsvara reitum á borðinu) og enn einfaldari myndrænni útgáfur. Alltaf er markmiðið einfaldlega að ná fjórum reitum í röð – á tveimur stöðum á borðinu.

Risk er meiriháttar herkænskuspil þar sem mislitar herdeildir keppast um yfirráð í sex heimsálfum. Leikurinn tekur tekur svolitinn tíma (a.m.k. 60 mín.) en er vel þessi virði. Spilamennskan er ekki flókin vanur leikmaður er með í spilinu. Gott að hafa þrjá keppendur.

Monopoly (eða “Matador”) er klassískt fjármálaspil þar sem stóreignamenn græða á hinum eignaminni. Nemendur fá aldrei leið á því að græða, borga og rukka. Gaman er að fá sérstakan leikmann í hlutverk bankastjóra. 

Partners minnir svolítið á hið klassíska spil Ludo en er mun fjölbreyttara og reynir á alls konar útsjónarsemi. Tveir leikmenn eru samherjar og geta samnýtt köst hvors annars. Stórskemmtilegt spil. Það þarf fjóra leikmenn til að spilið gangi upp og það tekur 30 – 60 mínútur.