Tungumálaleikir og málörvunarleikir
Það er mikilvægt að geta gripið í einfalda leiki til að örva nemendur í beitingu tungumálsins. Leikirnir ganga út á að leika sér með orð, leita að orðum, mynda ný orð eða lýsa fyrirbærum með ýmsum hætti. Hér eru tillögur að nokkrum vel heppnuðum ásamt einfaldri lýsingu á þeim.
Scrabble er sá tungumálaleikur sem náð hefur hvað mestri útbreiðslu. Keppt er í skrabbli víða um heim þar sem snillingar í meðferð tungumálsins leika listir sínar. Við sem heima sitjum þurfum hins vegar ekki að ganga svo langt. Skrabblið er einfalt og þægilegt spil sem á heima á hverju heimili og skóla. Þetta klassískur leikur sem flestir þekkja og gengur hann út á það að losa sig við bókstafi á rúðustikað borð. Hvert orð þarf að tengjast þeim orðum sem eru fyrir. Fyrir hvern bókstaf fást stig, mismörg eftir því hversu algengur stafurinn er. Það er hægt að gleyma sér í þessum leik langt fram eftir. Spilið tekur drjúgan tíma, líklega hátt í klukkutíma, og hentar því stresslausum aðstæðum eða háð því að hægt sé að láta spilið til hliðar og klára seinna.
Krossorðaspilið og Orðaskak eru að mörgu leyti náskyld Skrabbli. Þau nýtast að mörgu leyti betur í kennslustofunni því uppsetningin er nánast engin og öll spilamennska einfaldari og hraðari. Grunnhugmyndin er samt sú sama, að mynda orð sem tengjast í kross, eins og í krossgátu.
Orðaleit kemur í eðlilegu framhaldi af krossgátuspilunum. Orðaleit er skemmtilega hannaður leikur í anda orðasúpu (sem stundum kallast líka “orðaleit”). Það þekkja nemendur vel sem verkefni á blaði sem oftast er leysti í rólegheitum í einrúmi. Hér færist meira líf í tuskurnar. Leikið er með mismunandi spjöldum og sjálft spilaborðið er snilldarlega hannað með hringlaga ramma með litlum glugga þar sem leitarorðið gægist fram. Keppendur skiptast á að leita að þessu leitarorði og snúa svo borðinu til að finna næsta orð. Lauflétt skemmtun sem hentar breiðum hópi. Frábært fyrir yngstu nemendur grunnskólans sem eru að ná tökum á lestri.
Alias er spjallörvandi hugtakarússíbani sem leikin er í pörum (gott er að spila í nokkrum pörum sem keppa sína á milli). Annar aðili hvers pars um sig fær spjald með hugtökum og þarf að útskýra þau án þess að styðjast við neitt hugtak eða orðhluta sem þar kemur fram. Spilið reynir talsvert á málfærni og útsjónarsemi. Hér hjálpar mikið að kunna skil á samheitum, andstæðum hugtökum og ýmsum flokkum orða til að ná að knýja fram sem flest rétt orð hjá samherjanum á afmörkuðum tíma. Mjög líflegt og hressandi spil sem hvetur til mikilla samskipta.
Concept er sömuleiðis fremur einfaldur leikur sem gengur út á það að reyna að giska á hugtök eða fyrirbæri með því að notast við eiginleika þeirra. Þarna kemur markviss beiting lýsingarorða sér vel. Sérstök barnvæn útgáfa er einnig til af spilinu sem beinir sjónum að eiginleikum dýra. Frábært málörvunarspil sem er fallega myndskreytt og ætti að grípa augað strax og kassinn er opnaður.
Just One er mjög einfaldur leikur sem reynir þó á samvinnu en að þessu sinni er það allur hópurinn vinnur saman að því að ná sem flestum hugtökum réttum. Einn aðili hverju sinni veit ekki hvert hugtakið er en hinir gefa vísbendingu með orði, aðeins einu orði, án þess að bera sig saman. Ef svo vill til að tveir aðilar gefa sömu vísbendingu er þeirri vísbendingu sjálfkrafa eytt. Það borgar sig því ekki að vera með of augljósa vísbendingu. Meiriháttar samvera og samvinna sem ögrar færni okkar í að skilgreina og ná utan um hugtök frá sem flestum hliðum.
Wordaround er ótrúlega skemmtilega hannað spilþ sem undir eins grípur augað. Eins og sjá má er á hringlaga spjöldum búið að raða ýmsum orðum í hring án þess að maður átti sig á því hvar orðið byrjar eða endar. Takmarkið er að lesa út úr orðarununni skiljanlegt orð en það er hægara sagt en gert. Handhægt spil sem hægt er að leika sér með á ýmsa vegu, einn, tveir eða fleiri. Spjöldin, orðin og auðvitað spilið sjálft koma skemmtilega á óvart.
Aðrir leikir sem geta hæglega fallið undir þennan flokk:
Dixit, So Clover og Codenames (Sjá „Samskiptaspil“)
Sprengjuspilið, Dobble og Geistes (Sjá „Hraðaspil“)
Kaleidos (sjá „Athyglis- og minnisspil“)
Top Trumps (sjá „Spurningaleikir“)
Svo má ekki gleyma verkefnum á blaði eins og krossgátum, stafarugli og orðasúpum. Töfluleikir eins og Hengimann eru mjög málörvandi eins og allir spurningaleikir sem eru hæfilega þungir og hvetja til samskipta. Það að auki má nefna fjölda örvandi leikja á netinu eins og Connections þar sem við reynum að raða 16 hugtökum í fjóra flokka eftir skyldleika orðanna og Wordle (eða „orðlur“ eins og þær kallast á íslensku) sem gengur út á að finna lausnarorð með svipuðum vísbendingum og í rökfræðispilinu Master Mind.
