Spurningaleikir og fróðleiksspil

Það er gott að geta hvatt til samvinnu nemenda með vel heppnuðum spurningaleikjum eða hvetja þá til að leita sér fróðleiks. Hér eru tillögur að nokkrum vel heppnuðum leikjum sem efla skilning nemenda á umhverfi sínu ásamt einfaldri lýsingu á þeim.

Electro:

Eitt fyrsta gagnvirka spilið sem kom á markaðinn. Algjör klassík. Rafskaut tengja saman rétt svör. Mjög aðlaðandi og einfalt fyrir yngstu nemendurna sem njóta þess að sjá ljós kvikna við að tengja saman mynd og orð (eða mynd og mynd).

Smart 10:

Þematískur og mjög frumlegur spurningahringur leiðir keppendur áfram. Hversu mörg svör ertu með rétt? Geturðu stoppað áður en þú flaskar á svarinu (því þá tapast uppsöfnuð stig)? Geggjað og fljótlært. Hentar vel eldri nemendum, unglingadeild og upp úr. Fín fjölskylduskemmtun.

Brain Box:

Þetta er þematísk sería um alls konar viðfangsefni. Hér er landafræði heimsins tekin fyrir. Keppendur skoða vandlega upplýsingaspjöld á afmörkuðum tíma og svara svo spurningum. Mjög fræðandi og aðlaðandi.

Leonardo & Co.:

Frábært spurningaspil fyrir eldri nemendur (framhaldsskóla og eldri) um vísindi af ýmsu tagi. Spurningarnar eru mjög áhugaverðar og vel samdar, vekja fólk til umhugsunar og bjóða upp á þrjá svarkosti þannig að allir eiga raunhæfa möguleika á að vinna. Spilið sjálft er mjög einfalt og létt.

Trivial Pursuit:

Algjör klassík í heimi spurningaspila. Sjálft spilið er afar einfalt og það gerir það aðlaðandi. Persónulega finnst mér spurningarnar oft óspennandi og fara oft út í svokallaðan “sparðatíning”, smáatriði sem öllum er sama um, en samt mjög fræðandi og ögrandi. Hins vegar er Krakkaútgáfan betur samin og skemmtilegri fyrir skólakrakka.

Kviss:

Þegar spurningaleikir eru annars vegar snýst þetta allt um að hafa góðar og skemmtilegar spurningar sem maður raunverulega vill vita svarið við. Þar kemur Kvissið mjög sterkt inn sem fjölbreyttur og ótrúlega vel saminn spurningarkassi. Krakkaútgáfan er auðvitað frábær fyrir yngri nemendur.

Tímalína (Timeline):

Þetta er ekki beinlínis spurningarspil en engu að síður virkar það á mann sem slíkt því maður spyr sig stöðugt spurninga um atburði og þarf að ráða fram úr þeim til að losa sig við spil í réttri tímaröð. Hvenær gerðist þetta? Passa Napóleon og flugvélar saman? Frábærar hugleiðingar. Einfalt spjallspil sem býður upp á djúpar hugsanir. Hentar miðstigi og upp úr öllum aldri.

Top Trumps:

Eru mikil upplýsingaspil þar sem leikmenn bera saman upplýsingar og reyna að skáka keppinautum sínum með því að velja talnagildi sem “trompar” það sem hinir eru með. Top Trumps spilabunkarnir geta verið geysilega fræðandi. Þeir eru til um nánast hvaða viðfangsefni sem er, bæði fræði og skemmtun, og það er auðvelt að búa til sín eigin Top Trumps spjöld um sitt eigið áhugamál eða laga þau að námsefni bekkjarins (sjá nánari umfjöllun um Top Trumps hér).

Önnur spil sem fela í sér mikinn fróðleik án þess að vera beinlínis spurningaspil:

Ten Days in Europe og Prime Climb (sjá “Önnur borðspil”)

Guess who? (sjá “Rökfræðispil“)

Vísbendingaleikinn “Guess who?”/”Hver er persónan?” er auðvelt að leika munnlega með leiðandi spurningum. Hægt er að miðla af miklum fróðleik með þeim leik og laga að ýmsum hugðarefnum (Til dæmis: “Hvert er dýrið?” eða “Hvert er landið?”). Rétt er auðvitað að vekja athygli á gildi spurningaleikja almennt og í því samhengi er tilvalið að nemendur taki þátt í að búa til spurningar og undirbúa leikinn. Svo er það internetið! Ég vil almennt ekki ota nemendum að internetinu því nóg er af afþreyingu þar sem glepur en engu að síður er mjög freistandi að minna á þá spurningaleiki á netinu sem bjóða upp á mjög uppbyggilega skemmtun og fróðleik. Með því að kennari stýri ferðinni getur heill bekkur eða smærri hópar farið í gegnum leiki eins og Kahoot, Purposegames og Geoguessr. Þeir henta allir mjög vel í skólastofunni.