Leikir með hefðbundnum spilum eða spjöldum
Fullt af spilum dagsins í dag byggjast á spjöldum eða hefðbundnum spilastokki sem síðar hefur þróast í litríkari og sérhæfðari bunka sem þjónar einungis einu tilteknu spili. Það gerir leik sem þróast hefur með venjulegum spilum enn meira grípandi og aðlaðandi. Flest eru þau mjög heppileg í skólastofuna þar sem þau eru handhæg og krefjast lítils undirbúnings.
Dómínó kubbar bjóða upp á alls konar leiki og hafa víða verið spilaðir með misflóknum reglum en í sinni allra einföldustu mynd er leikurinn frábær örvun í talningu fyrir yngstu nemendurna. Á netinu er hægt að nálgast fjölmargar áhugaverðar útgáfur af dómínói.
Rummikub er náskylt gamla góða rommí sem margir hafa spilað á hefðbundin spil. Með kubbunum verður leikurinn enn meira aðlaðandi og jafnvel skemmtilegri.
SkipBo er frekar einfalt spil sem minnir að mörgu leyti á kapal sem nokkrir aðilar (tveir eða fleiri) leggja saman en eru samt að keppa hver við annan. Keppendur reyna að tæma spilin úr borði hjá sér á undan hinum eftir einföldum reglum. Sérstakt Skipbo spil kemur upp öðru hvoru sem jóker og brúar bilið á milli talnanna á ögurstundu.
Uno gengur í grunninn út á það að losa sig við spil af hendi í sameiginlegan bunka. Spilið þarf að passa við lit, tölu eða form efsta spilsins í bunkanum. Við þetta bætast nokkur skemmtileg aukaspil sem hrista upp í leiknum sem annars minnir um margt á Ólsen en er bara litríkari og aðeins fjölbreyttari.
Hi-Lo er afar litríkur spilastokkur með tölum frá mínus einum og upp í ellefu (plús). Níu spilum er raðað í (3 x 3) hnitakerfi. Takmarkið er að skipta þeim út, fækka eða endurraða þannig að maður sitji uppi með sem lægsta samanlagða tölu. Vandinn er sá að spilunum var upphaflega snúið á hvolf svo það liggur alltaf talsverð óvissa í loftinu. Hi-Lo er mjög skýrt og einfalt spil og það kemur stöðugt á óvart. Það reynir aðeins á talningu, sem er auðvitað bara frábært.
Sleeping Queens er mjög fallegt spil með drottningum og kóngum ásamt hirðfíflum, drekum, riddurum og eitri. Allt blandast þetta saman í auðveldum leik þar sem takmarkið er að eignast drottningar (sem gefa mismörg stig). Það gerir maður með því að draga kóng úr bunkanum. Hins vegar geta aðrir leikmenn svæft þær (þá fara þær aftur í bunkann) eða steli þeim. Mjög líflegt spil fyrir hugmyndaríka krakka.
Too Many Monkeys er eitt af þessum spilum sem auðvelt er að spila með venjulegum spilastokki en það er bara svo miklu skemmtilegra svona með fallega myndskreyttum og aðlaðandi spjöldum. Takmarkið er að vera fyrstur til að búa til talnaröð, frá 1-6, með því að draga spil úr bunka. Nokkur sérspil hrista skemmtilega upp í leiknum. Spilið höfðar vel til yngstu nemenda því það er auðvelt að læra spilið og reynir ekki á neina útreikninga (bara einfalda talningu).
Cabanga! er ekkert ósvipað því að leggja kapal. Takmarkið er að losa sig við öll spilin á hendi í gul, rauð, fjólublá eða ljósblá talnabil (sem er afmarkað með spilum sem taka breytingum). Ef þú lætur tölu ofan á aðra töluna sem afmarkar talnabil (og stækkar með því eða þrengir talnabilið) getur einhver skotið spili inn í talnabilið ef hann/hún á tölu í sama lit sem passar inn í talnabilið og hrópar “Cabanga”. Við það þarf hinn að draga aukaspil. Þegar einn leikmaður er búinn að losa sig við spilin sín lýkur umferðinni og telja aðrir keppendur saman spilin á hendi og reikna sem mínus. Svolítið erfitt að útskýra en auðvelt að spila!
Flip 7 er geysilega líflegt og spennandi. Það byggist upp á litríkum spilastokki með talnaspjöldum og aðgerðaspjöldum. Í honum eru tólf tólfur, ellefu ellefur, tíu tíur og svo framvegis niður í einn ás (ásamt einu núlli). Takmarkið er að safna spilum sem gefa mismörg stig en án þess að sama talan komi upp tvisvar. Með því er maður sprunginn og tapar öllum stigum í þeirri umferð. Hver kann sér hóf? Hvenær á maður að tefla í tvísýnu? Flip 7 er leikur sem gengur á samlagningu, líkindareikning og fyrirhyggju (og það að hemja græðgina).
Önnur spil sem geta fallið undir þennan flokk:
King of the Dice (sjá “Teningaleikir”)
Top Trumps (sjá “Spurningaleikir”)
Þar fyrir utan er endalaust hægt að finna spil sem hægt er að leika með hefðbundnum spilastokki. Rommí, kaplar, veiðimann og fleira. Í mörgum tilvikum er búið að hanna aðlaðandi spil sem uppruna á að rekja til hefðbundinna spila.
