Athyglis- og minnisspil

Þeir leikir sem krefjast þess fyrst og fremst að keppendur skerpi athyglina, fylgist vel og gaumgæfilega með og festi jafnvel hvert smáatriði í minni, falla undir þennan flokk spila. Hér fyrir neðan er einföld lýsing á þeim helstu:

Samstæðuspil (Eða Memory)

eru sérstaklega heppileg fyrir kennslustofuna því þau eru hljóðlát, róleg og mjög aðlögunarhæf hvað efnistök varðar. Þau eru þeirrar náttúru að yngri nemendur standa sig oftast betur en þeir eldri. Einfaldleikinn er aðlaðandi í spilamennskunni en það er ekki síður gaman að búa til sín eigin minnispil (Það er fjallað um sérstaklega það á annarri síðu hér).

Taiga (einnig þekkt sem “Findevier”)

er minnisspil með fallegri vísun í náttúruna með hringlaga skífum úr náttúrulegum viði. Skífurnar og skuggamyndir á þeim af dýrum minna á laufskóga (taiga), sem er þema spilsins. Skuggamyndirnar eru af fimm mismunandi skógardýrum, sem er að finna báðum megin á skífunum (bifur, hreindýr, broddgöltur, ugla og refur).  Hvert og eitt þeirra er að finna einu sinni á bak við myndirnar af hinum dýrunumlei. Leitin reynir því ekki aðeins á minni heldur líka rökhugsun. Keppendur leita að fjórum einstaklingum af einu dýri í einu. Stundum sést einn eða fleiri einstaklingar (snúa upp), öðrum man maður eftir að hafa séð nýlega (en hvar nákvæmlega?) en til að finna felustað síðasta dýrsins þarf oft skarpa rökhugsun.

Chicky Picky

er mjög barnvænt minnisspil. Keppendur setja orma (sem eru í mismunandi litum og eru jafnframt mislangir) í sérstakar holur sem ekki sést ofan í (þeim er lokað með lítill “grastorfu”). Þegar leikurinn hefst getur verið að sumar holur séu tómar á meðan í öðrum getur verið fullt af ormum. Keppendur þurfa að leita að ormum fyrir kjúklinga (sem eru gular skífur með spíral frá munni og niður í maga). Aðeins má finna orma, í réttum litum, sem passa við það sem kemur upp í teningakasti. Þá er eins gott að muna hvar ormarnir eru.

Shopping List

er annar minnis- og athyglisleikur sem hefur slegið í gegn á undanförnum árum. Hann gengur einfaldlega út á að muna eftir því hvað á að kaupa miðað við uppgefinn innkaupalista. Nemendur raða svo vörunum samviskusamlega í körfuna sína og passa vandlega að gleyma engu. Stundum þurfa leikir ekki að vera flóknir.

Kaleidos

er mikið athyglisspil sem einnig er mjög málörvandi. Á afmörkuðum tíma keppast þáttakendur um að finna fyrirbæri sem passa við bókstaf sem kemur upp tilviljunarkennt á sérstakri skífu. Leitin á sér stað á myndum sem eru uppfullar af smáatriðum. Hver keppandi er með sína mynd og skráir hjá sér (eða setur skífu ofan á) það sem hann/hún finnur. Niðurstöður eru bornar saman eftir á en einmitt þá eiga sér stað áhugaverðar bollaleggingar um það hvað telst gilt orð og hvað ekki. Einungis telst til stiga það sem aðrir fundu ekki.

Simon

á varla við sem spil í hefðbundinni kennslustofu þar sem það gefur frá sér mjög skýr og afgerandi hljóð sem myndu grípa athygli allra nærstaddra. Á afmörkuðum stað myndi spilið hins vegar slá í gegn sem örvandi leikur og þjálfun. Simon er mikið minnisspil sem og gengur út á að muna tónasamsetningu, sem heyrist í áföngum, einn tón í einu, á sama tíma og tónarnir blikka á litríkum hnöppum. Ef eitthvert spil er ávanabindandi þá er það þetta. Spilið er spilað sem einmenningsspil en venjulega sogast áhorfendur með inn í hringiðu lita og tóna.