Rýmisfærnispil og púslþrautir
Það er fátt eins róandi og að fá að glíma við eitthvað áþreifanlegt. Myndrænar þrautir og form örva skynjunina og skapa sterkari tengingar í heilanum en orð. Rýmisfærni og jafnvægisfærni hjálpar nemendum að stilla sig af á stað og stund. Hér eru tillögur að nokkrum vel heppnuðum rýmis- og púslþrautum ásamt einfaldri lýsingu á þeim.
Púsluspil eru til í ýmsum gerðum og geta miðlað af miklum fróðleik til nemenda án þess að þeir upplifi sem svo að verið sé að þröngva neinu upp á þá. Púsl eru til í margs konar útgáfum, stæðrum og gerðum og fjölmargir útgefendur leggja mikinn metnað í að búa til ögrandi eða fræðandi púsluspil. Ómissandi í hverja kennslustofu (sjá nánar um púsluspil sérstakri síðu).
Tangram er gömul kínversk púslþraut sem auðvelt er að útbúa í smíðastofu eða að finna á sanngjörnu verði úti í búð. Í gegnum tíðina hafa menn náð að búa til alls konar úr þessum einföldu kubbum og takmarkið er að geta leikið það eftir. Yfirleitt fylgir þrautabók með hverju setti sem keypt er en einnig er hægt að finna myndir og lausnir við uppröðun þeirra á netinu. Kubbarnir eru allir hlutfallslega tengdir innbyrðis og því áhugaverðir út frá stærðfræðinni ekki síður en sem myndform.
Rush Hour (eða “Traffic Jam”) er frábært einmenningsspil sem menn þekkja kannski betur sem tölvuleik. Hér gengur það þannig fyrir sig að maður leysir þraut af spjaldi. Samkvæmt því er bílunum raðað á borðið (bílastæðið) og takmarkið er að losa rauða bílinn út af bílastæðinu með því að færa hann ásamt hinum bílunum til og frá án þess að lyfta nokkrum þeirra. Þrautirnar eru miserfiðar og lausnina eða aðgerðaröðina er að vinna aftan á hverju blaðið. Frábært fyrir nemendur að dunda sér við þetta í einrúmi eða tveggja manna spjalli.
Qwirkle minnir að sumu leyti á Scrabble. Spilið gengur út á að keppendur skiptast á að láta af hendi flísar í mismunandi litum og með mismunandi myndum (formum). Aðeins má láta af hendi sex flísar í hverja röð, lóðrétt sem lárétt. Engar tvær flísar mega vera nákvæmlega eins í neinni röð en allar þurfa þó samt að vera í sama lit eða í búa yfir sama formi og hinar flísarnar í röðinni. Spilið reynir þó nokkuð á rökhugsun en ekki síður á skarpa sýn og formhugsun. Það er samt rólegt spjallspil og gott að dunda sér við ef því er að skipta.
Make´n Break er mjög auðvelt spil þar sem keppendur skiptast á að keppa við klukkuna við að raða mislitum kubbum á sama hátt og fyrirskipað er á spjöldum sem dregin eru efst úr spilabunka. Þrautirnar á spjöldunum er miserfiðar og gefa misjafnlega mörg stig. Það er líka gaman að dunda sér við að leysa þrautirnar í einrúmi án þess að keppa við tímann.
Blokus er rýmisspil þar sem hver keppandi er með flísar í tilteknum lit og reynir að koma sínum flísum út á spilaborðið. Hver flís er samsett úr nokkrum mismunandi formum og raðast misjafnlega vel. Reyndir mikið á útsjónarsemi keppenda að loka hina inni og takmarka valmöguleika þeirra. Ekki skemmir fyrir hvað spilið er fallegt. Það er til í ýmsum útgáfum, fyrir tvo eða fleiri keppendur.
Ubongo gengur út á að leysa alls konar rýmisþrautir. Keppentdur fylla sitt eigið leikbretti út frá fyrirmælum á spjöldum. Spilið minnir að sumu leyti á Tetris og Tangram. Stórfínt fjölskylduspil.
Mikado er leikur með lituðum pinnum sem eru látnir liggja í óreglulegri hrúgu. Takmarkið er að losa pinna í burtu frá haugnum án þess að hinir hreyfist. Afskaplega einfaldur leikur sem reynir mikið á fínhreyfingar, vandvirkni, stöðugleika og þolinmæði.
Panic Tower gengur út á að byggja turna út frá leiðbeiningum án þess að þeir falli. Leikurinn hefst með því að keppendur raða nokkrum kubbum tilviljunarkennt á sérstakan grunn með litamynstri. Eftir það fær hver keppandi fyrirmæli á spjöldum um að bæta við turnana eftir ýmsum litamynstrum. Æsispennandi fyrir keppendur að sjá hvaða turn stendur og hver fellur. Reynir mikið á fínhreyfingar og þolinmæði.
Jenga er einfaldur leikur sem gengur út á fínhreyfingar. Kubbastæðu sem hefur veirð raðað á skjön (hver hæð þvert á þá næstu). Keppendur þurfa að draga kubb að eigin vali innan úr stæðunni og setja upp á topp. Sá vinnur sem síðastur nær þessu með góðum árangri.
Animal upon animal er myndrænni útgáfa af Jenga og leikinn með sérstökum teningum sem veita nákvæmari fyrirmæli um það hvað hver leikmaður á að gera. Frábært fyrir yngri nemendur.
Ekki má gleyma öllum þeim kubbum sem standa nemendum til boða í flestum skólum, hvort sem það er kaplakubbar eða segulkubbar. Gömlu góðu legókubbarnir bjóða upp á skapandi hugsun ásamt því að leita tæknilegra lausna. Einföld yfirfærsla á mynd yfir í form felur í sér nautn. Það er engin tilviljun að börn dvelja lengi við einfalda iðju eins og að perla. Verkmenntatímar eru fyrir vikið eftirsóttustu tímar skólans. Þeir eru nauðsynleg endurnýjun hugar og sálar í amstri skólastarfsins og fyrir suma nemendur eini staðurinn þar sem þau raunverulega njóta sín.
