Slöngulausa spilið

Spilatími er um 10 – 20 mínútur

Spilið er byggt á hinu víðfræga slönguspili sem menn hafa spilað öldum saman, kynslóð fram af kynslóð. Enginn virðist vita nákvæmlega hvaðan það kemur en þó virðast rætur þess liggja á Indlandi þar sem forlagatrú er ríkjandi enda einkennist spilið af því að enginn getur haft áhrif á niðurstöðu spilsins. Hins vegar er Slöngulausa spilið nútímaleg útgáfa af spilinu og hefur þróast smám saman undanfarin tíu ár í kennslu og tómstundum. Eins og nafnið gefur til kynna hefur spilið ekki að geyma neinar slöngur (og ekki heldur stiga) og í þessu tilviki hafa leikmenn eitthvað um örlög sín að segja þó tilviljunarkennt teningakast ráði að mestu ríkjum.

Hið klassíska slönguspil

Hér sést dæmi um klassískt slönguspil þar sem hver stigi og slanga leiðir keppendur aftur og bak og áfram um borðið. Í öllum tilvikum er leikmanni beint á einn tiltekinn stað. Allt er í mjög föstum skorðum hvað það varðar.

Slöngulausa

Eins og sést hér hefur slöngulausa spilið ekki að geyma neina slöngu né stiga heldur
hringlaga “rúllettureiti” sem beina keppendum í ýmsar áttir eftir því hvaða tala kemur upp á litríkum spilastokki og býður upp á mjög ófyrirsjáanlega útúrdúra.

Í stað stiga og slanga eru eins konar “rúllettureitir”, hringlaga reitir þar sem hægt er að fara ýmist áfram eða aftur á bak með því að draga mislit spjöld (gul, rauð og græn). Þetta veldur því að staða keppenda getur sveiflast talsvert milli umferða. Spjöldin beina keppendum ýmist aftur á bak eða áfram, misjafnlega langt, og þeir geta því lent á öðrum “rúllettureit” og svo koll af kolli. Sumar umferðir geta orðið æði skrautlegar.

Aðrar einfaldar en veigamikla breytingar á uppsetningu spilsins gera það líflegra og ófyrirsjáanlegra en hið upprunalega slönguspil. Til dæmis eru teningarnir tveir, en ekki einn, sem kastað er og gerir það færslur á borðinu fjölbreyttari og býður upp á meiri sveiflur og gerir þær kröfur til keppenda að þeir noti hugarreikning.

Fyrir utan þetta gerir veigamikil breyting á spilaborðinu keppendum kleift að reikna sig áfram (í stað þess að telja). Röð reitanna liggur eins og texti í bók þannig að talan ellefu er undir ásnum og tólf er undir tvistinum og svo framvegis í stað þess að hlykkjast eins og ormur um borðið eins og í slönguspilinu (þar sem ellefu er undir tíu). Þetta veldur því að nemendur geta reiknað sig auðveldlega fram og aftur borðið með einföldum hugarreikningi. Til dæmis ef keppandi fær töluna átján færir hann leikpeðið lóðrétt um tvo reiti (plús tuttugu) og fer svo tvo reiti lárétt afturábak. Með þessari nálgun sjá nemendur glögglega hvernig það borgar sig að kunna að reikna í stað þess að þurfa sífellt að telja.

Með teningunum tveimur þurfa keppendur að hitta lokareitinn nákvæmlega en geta í lokalínu spilsins valið um þrjár kastútkomur með því að velja á milli teninganna tveggja eða leggja þá saman. Þar með aukast líkurnar á að hitta í mark en hafa ber í huga að á þeim stað í spilinu eru rúllettureitirnir sérlega varasamir.

Slönguspilið er fljótspilað og auðlært. Hægt er að laga spilið að getu hvers og eins og það hentar vel breiðum hópi. Með litríkum spilastokki, tveimur teningum og hinu uppfærða spilaborði fara keppendur í gegnum margar óvæntar sveiflur þar yfir lýkur.

Spilið er fáanlegt hjá höfundi sem getur afhent það hvar sem er á höfuðborgarsvæðinu með nokkurra daga fyrirvara. Endilega hafið samband með tölvupósti: steinib@islandia.is.

Hlakka til að heyra í ykkur.