Einfaldir teningaleikir

Teningar hafa í gegnum tíðina verið notaðir á ýmsa vegu, bæði í andlegum tilgangi og til skemmtunar. Hér fyrir neðan er einföld lýsing á nokkrum leikjum, bæði klassískum og nýtískulegum leikjum, þar sem teningarnir eru í aðalhlutverki.

Shut the Box (ísl. Lok og Læs) er gamagróið spil sem þekkist víða um Evrópu. Það er hægt að spila sem einmenning en einnig keppa við aðra. Spilið gengur út á að reyna að ná (eða “loka”) tölunum með teningakasti. Sú tala sem kemur upp á tveimur teningum þarf að samsvara þeirri tölu sem er “lokað”. Það má líka leggja saman tölur og loka þá nokkrum samtímis. Um leið og það gerist að kast samsvarar ekki neinni tölu (einfaldri né samanlagðri) er umferðinni lokið og keppinauturinn á leik. Tölurnar sem ekki lokuðust eru að lokum lagðar saman og teljast til frádráttar. Mjög fljótspilað og skemmtilegt að meðhöndla.

Yatzy er náttúrulega eitt að þjóðkunnustu spilum Íslendinga. Það þekkja allir eins og Litlu gulu hænuna. Hægt er að spila það með ýmsum hætti, eftir réttri röð eða frjálslega (sem krefst meiri útsjónarsemi). Einnig er vel hægt að aðskilja efri og neðri hlutann og einbeita sér að þeim efri með yngstu börnunum. Spil sem líður aldrei úr gildi.

Strike er mjög nýlegt spil og stórskemmtilegt. Keppendur hafa sjö teninga á hendi (venjulega sex hliða teninga með öllum hliðum venjulegum nema það að sjötta hliðin er X og táknar “úr leik”). Keppendur kasta einum teningi í einu í sérstaka skál (eða hringleikahús, eins og þeir kalla það). Ef upp kemur X þá hefur sá teningur tapast og er úr leik. Ef keppandi kastar teningi sem er eins og einhver annar í skálinni þá græðir keppandinn báða þá teninga og fær þá til baka. Takmarkið er að tapa ekki öllum teningunum sínum á undan hinum. Þetta er nánast heimskulegur leikur en fyrir vikið alveg bráðfjörugur.

Heckmeck (eða “Pickomino”) er nánast eins auðvelt og jatsí en í stað þess að skrifa stig í töflu þá ná keppendur í stig með því að stela númeruðum skífum sem passa við kastið (með talnagildi 21 til 36). Hver númeruð skífa gefur eitt til fjögur stig (sem er táknað með ormum undir tölu hverrar skífu). Keppendur skiptast á að kasta átta teningum, nokkrum sinnum, og mega hirða eins marga teninga og þeir vilja og leggja þá saman, en mega bara hirða þá sem eru eins. Í næsta kasti halda þeir áfram að veiða tölur og bæta við safnið sitt en þá má ekki ná í teninga með sömu tölu, hún verður að vera önnur. Með tímanum fækkar bæði teningunum og þeim tölum sem hægt er að ná. Vandinn er sá að um leið og upp koma bara tölur sem keppandinn hefur þegar náð er hann búinn að tapa öllum stigunum sínum. Það má stoppa hvenær sem er, en það er bara svo erfitt. Heckmeck er frumlegt en bráðskemmtilegt spil.

Encore! ætti að höfða til þeirra sem spila jatsí. Keppendur eru með sitt hvort blaðið og reyna að eignast litaða reiti sem samsvara kasti tveggja teninga (annar með litum og hinn með tölum, báðir með einni “jókerhlið” sem gildir sem frjálst val). Í hverju kasti verða keppendur að halda sig við einn lit í einu og út frá því svæði sem þeir hafa þegar merkt sér. Stig eru í boði hér og þar sem keppendur merkja hjá sér jafn óðum í sérstaka reiti. Þar sem keppendur eru með sitt hvort blaðið geta þeir mögulega náð sömu stigunum en sá sem er á undan fær fleiri stig. Stigataflan reiknar þetta allt út skilmerkilega. Encore! er litrík en afslöppuð keppni með talningu í lokin sem tekur tillit til margra þátta (stig fyrir lóðréttar raðir, stig fyrir að ná öllum reitum í sama lit og fyrir að nota færri jókera og svo framvegis). Spilið er líka hægt að dunda sér við sem einmenningsspil.

Quixx er mjög likt Encore! með merkingum á litríku blaði. Skráningin á sér hins vegar ekki stað í frjálslega í allar áttir (eins og í Encore!) heldur fylgir hún talnaröðum sem snúa í ýmsar áttir. Kastreglur er aðrar (til dæmis eru fjórir litaðir teningar og tveir venjulegir) og velja keppendur sér þá samsetningu lita og talna sem passa best við stöðuna á talnalínunum. Það þarf að velja vandlega hvar maður merkir sér reiti því hver ákvörðun þrengir möguleikana í næsta kasti. Reglurnar eru margslungnar og pínu ruglandi í byrjun en eftir eitt rennsli verður leikurinn auðveldur og ávanabindandi.

King of the Dice er afskaplega myndrænt spil með glaðlegum myndum af þorpsbúum og þorpum sem öll hafa að geyma stig sem hægt er að ná með því að kasta teningum. Til að ná tilteknu spili þurfa teninganir sem kastað er að passa við mynstrið á spilinu. Teningarnir eru með tölum og litum sem þurfa að samsvara spjöldunum. Þetta er svolítið líkt jatsí að því leyti að teningarnir geta myndað talnaraðir eða til dæmis fullt hús (þ.e.a.s. tvo í einum lit og þrjá í öðrum). Hægt er að fá fleiri stig ef þorpsbúaspjöldin passa á ákveðinn hátt við myndirnar af þorpunum, en þau hreyfast til eftir hvert kast sem gerir spilið mjög “dýnamískt” eða lifandi. King of the Dice er bæði nýstárlegt spil og kunnuglegt í senn.