Ég heiti Þorsteinn Guðni Berghreinsson, Breiðhyltingur að upplagi, fróðleiksþyrstur alla tíð og bókhneigður. Stundaði fótbolta á uppvaxtarárum mínum og þar sem ég ólst upp í Seljahverfinu var var úti alla daga með boltann í góðra vina hópi hvort sem úti var rigning, sól og snjóstormur. Á sama tíma naut ég þess að skapa og teikna og fór eftir grunnskólann í myndlistarnám í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti þaðan sem ég útskrifaðist 1992.
Á þeim árum grasseraði tungumálaáhuginn og fór ég að lokum í spænskunám í Háskólanum áður en ég rataði í mannfræði þar sem hugurinn opnaðist upp á gátt. Þetta voru mikil mótunarár þar sem hugurinn leitaði fanga víða með tilheyrandi ferðalögum þar sem ég var langdvölum á sumrin í Englandi, Danmörku, Þýskalandi og Spáni ýmist að vinna, í tungumálanámi eða skrautlegum bakpokaferðalögum um álfuna. Samhliða náminu í Háskólanum stundaði ég kórsöng með Háskólakórnum (það var sannarlega gott veganesti í lífinu síðar meir enda nærir kórsöngur andann betur en flest annað), starfaði um tíma við þáttagerð (á X-inu) og öðlaðist Landvarðaréttindi. Að loknu öllu brölti mínu á háskólaárunum (þaðan sem ég útskrifaðist 1997 með B.A. gráðu í mannfræði) ákvað ég að lokum að taka smá pásu og fór út á land að starfa sem leiðbeinandi í skóla. Þar fann ég loksins rótfestu sem aldrei fyrr.
Tvö ár í Grunnskólanum á Hellu sannfærðu mig um að skólaumhverfið væri sá vettvangur sem hentaði mér. Þar gat ég sameinað ótal mörg áhugamál og haldið í leiðinni áfram að viða að mér alls kyns þekkingu og fróðleik. Ég komst á sama tíma að því í leiðinni hvað samfélag skólans var heillandi. Það var gefandi að eiga í fjölbreyttu samstarfi við samkennara og annað starfsfólk skólans og ná í leiðinni sterkri tengingu við börnin og foreldra þeirra. Ég hafði mikla ánægju af því að miðla af námsefninu til barnanna og reyndi að gera það með skapandi hætti og lagði mig fram um að setja námsefnið fram á eins lifandi og myndrænan hátt og ég gat. Í grunnskólanum þar starfaði ég sem fyrst og fremst sem myndlistarkennari en kenndi líka eðlisfræði og efnafræði. Eftir tíma minn þar flutti ég aftur til Reykjavíkur og starfaði ég um tíma á sambýlum. Þar kynntist ég mjög fjölbreyttum einstaklingum sem glímdu við ýmiss konar hindranir, líkamlegar og andlegar, og það var sannarlega krefjandi en ánægjulegt að finna leiðir til að koma til móts við þarfir þeirra. Ég greip í kennslu hér og þar samhliða þessari vinnu og sannfærðist að endingu um að ég vildi gera þetta almennilega. Það leiddi mig í Kennaraháskólann og útskrifaðist þaðan með almenn kennsluréttindi árið 2004 og fékk þá um haustið starf hjá Brúarskóla.
Brúarskóli var mikið gæfuspor. Þar saman komnir mjög reynslumiklir og skapandi kennarar úr ýmsum áttum og starfa saman á nokkrum deildum skólans. Höfuðstöðvar skólans eru í Vesturhlíð en hann hefur starfrækt deildir hér og þar í Reykjavík, meðal annars í Grafarvogi, Seljahverfi og í Laugardalnum. Þar starfaði ég við sérkennslu í deild skólans sem staðsett er á lóð Barna- og unglingadeildar Landspítalans (BUGL) og starfið fannst mér því passa afar vel við bakgrunn minn og reynslu í fötlunargeiranum. Þar sem skólinn sinnir sjúkrakennslu barna og unglinga af BUGL er það eðlilega mjög fjölbreytt. Nemendur staldra oftast stutt við í einu (oftast nokkrar vikur en stundum aðeins örfáa daga í senn). Flestir þeirra þjást af margs konar vanlíðan, eru með brotna sjálfsmynd, hafa lengi glímt við skólaforðun, athyglisbrest eða ofvirkni, eða margs konar samskiptavanda. Það var mjög mikilvægt að geta nálgast þessa nemendur af mikilli nærgætni en á sama tíma mjög markvisst. Það reyndist mér best að vinna mér inn traust þeirra með því að nálgast þau svolítið frá hlið í gegnum leiki, þrautir og spil. Með tímanum þróaði ég með mér mikið safn af alls kyns námstengdum spilum og þrautum sem vöktu áhuga nemenda og náðu að virkja þá í námi á markvissari hátt en hefðbundið námsefni. Þegar umsjónarkennarar vitjuðu nemenda sinna á BUGL og komu í heimsókn í skólann vöktu verkefnin mikinn áhuga þeirra. Það vaktimig til umhugsunar um að það væri full ástæða til að opna skúffurnar og deila verkefnunum og hugmyndavinnunni með öðrum kollegum mínum.
